• Dalskóli
   Dalskóli tók forskot á sæluna og hóf Göngum í skólann 2017 hjá sér þann 1. september með fjallgöngu á Úlfarsfellið. Veður var með ágætum og stemmningin meðal göngufólks enn betri. Allir bekkir frá 1.-10.bekkjar tóku þátt eða samtals 235 börn. Ánægjan var mikil þegar tindinum var náð og sólskinsbros nemenda skinu í heiði. Verkefnið heldur áfram í Dalskóla fram til 4. október og skrá allir krakkar sinn ferðamáta fram að þeim tíma.
 • Grunnskólinn á Ísafirði
  Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst mörgum fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Þessa dagana hafa nemendur skundað upp um fjöll og firnindi og fór 10. bekkur t.d. siglandi norður í Grunnavík í gær og gekk yfir á Flæðareyri. 6.bekkur fór upp á Sandfellið sem er staðsett á skíðasvæði Ísfirðinga. Gengið var frá gönguskíðasvæðinu á Seljalandsdal á Sandfellið og svo niður í Tungudal sem er svigskíðasvæðið. Frábær dagur! Fjallgöngurnar eru mikilvægar til að efla samstöðu og félagsþroska nemenda en í þeim fá þeir tækifæri til að aðstoða samnemendur og eiga í fjölbreyttum samskiptum um leið og þeir fræðast um nærumhverfi sitt og náttúruna. 
 • Víðistaðaskóli

  Víðistaðaskóli tók þátt í verkefninu nú sem endranær en skólinn hefur verið með frá byrjun með einum eða öðrum þætti. Þátttakan hefur þó verið mismikil milli ára en alltaf einhver. Starfsmenn og nemendur hafa ætíð verið hvattir til að nota virkan ferðamáta til og frá skólanum og að nýta nærumhverfið til útiveru og útikennslu. Staðsetning Víðistaðaskóla er þannig að gönguleiðir að skólanum eru margar, fjölbreyttar og öruggar og svo má ekki gleyma Víðistaðatúni, eitt besta útiveru- og leiksvæði okkar Hafnfirðinga með möguleika á fjölbreyttri afþreyingu.

  Í ár fengum við þann heiður að starta verkefninu þetta árið. Á upphafsdegi verkefnisins mættu til okkar fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar, fulltrúar ÍSÍ, fulltrúar Embætti Landlæknis, fulltrúar lögreglunnar og heilbrigðisráðherra. Einnig gáfu nokkrir foreldrar sér tíma til að koma og vera með í startinu. Sá háttur var hafður á að öllum nemendum 3. bekkjar var boðið að vera með í að hefja verkefnið og var samkomusalur okkar þéttsetinn nemendum sem hlustuðu prúð og stillt á nokkur erindi gestanna sem fjölluðu um verkefnið og mikilvægi reglubundinnar hreyfingar. Að þeim loknum fór allur hópurinn, nemendurnir, kennarar þeirra og gestirnir, í göngutúr niður á Víðistaðatún og gengu þar einn góðan hring.

  Víðistaðaskóli er þátttakandi í verkefni Embætti Landlæknis; Heilsueflandi grunnskóli. Í skólanum er starfandi svokallað Heilsuteymi sem samanstendur af nokkrum kennurum, fulltrúum nemenda, og skólastjóra. Ásamt því að stýra innleiðingu verkefnisins Heilsueflandi grunnskóli þá sér heilsuteymið um ýmsa viðburði er snúa að hreyfingu og almennu heilbrigði bæði nemenda og starfsfólks.

  Gönguhópur er virkur meðal starfsmanna og eru miserfiðar göngur vikulega og hafa verið frá skólabyrjun. Langtímamarkmiðið er að sem flestir starfsmenn skólans fari í hópferð á Fimmvörðuháls í lok skólaárs.

  Norræna skólahlaupið hefur verið fastur liður í skólanum á hverju hausti. Íþróttakennararnir hafa leitt þetta verkefni sem hefur verið góð leið til að hefja verkefnið göngum í skólann að taka þátt í hlaupinu. Það er undantekning ef einhver nemandi tekur ekki þátt í hlaupinu sem fer fram á Víðistaðatúni.

  Það var nokkuð misjafnt hvernig nemendur og kennarar tóku þátt í göngum í skólann nú í ár. Ýmist voru bekkirnir sjálfir með reglulega hreyfingu á miðjum skóladegi og brutu upp kennsluna. Má segja að sumir bekkir og árgangar hafi verið á ferð og flugi út og suður allan mánuðinn. Sumir bekkir ákváðu að hafa smákeppni með því að skipta í lið, útbúa plaköt sem hengd voru upp á vegg þar sem merkt var inn á hverjum degi hvort gengið var í skólann eða ekki fyrir hvern og einn. Í einhverjum tilvikum tóku árgangar sig saman og unnu að þessu með ýmsum hætti s.s. að búa til súlurit yfir gengnar vegalengdir og fjölda daga og tengdu þar með stærðfræði inn í verkefnið. Enn aðrir létu sér nægja að vera með daglega umræðu um hreyfingu og öryggi á gönguleiðum og voru næðisstundir á morgnana gjarnan nýttir í þá umræðu. Eins voru lífsleiknitímar vel nýttir fyrir umræður um gildi reglubundinnar hreyfingar. Almennt má segja að langflestir nemendur nota virkan ferðamáta á leið til og frá skóla og heyrir það til undantekninga ef nemendum er skutlað í bíl, það eru þá helst allra yngstu nemendurnir sem eiga heima lengst frá skólanum sem fá þá þjónustu, en það er ekki algengt þó.

  Einstaka kennarar hafa sent inn fréttir og myndir t.d. inn á Facebooksíðu Hafnarfjarðarbær og heimasíðu skólans en það er eitthvað sem klárlega mætti gera meira af.

  Það er almenn ánægja meðal starfsmanna skólan, nemenda og foreldra með þetta verkefni og gaman að finna að verkefnið er orðið einn af föstu liðunum í skólastarfinu. Þetta er orðið eðlilegur hluti af skólastarfinu en ekki kvöð eða “enn eitt verkefnið” sem vinna þarf með í skólanum. Það er markmið okkar að hreyfing ásamt góðri næringu verði lýsandi fyrir starfið í skólanum og verði eðlilegur hluti af menningu hans.

  Fyrir hönd Víðistaðaskóla

  Hreiðar Gíslason

  Íþróttakennari og stjórnandi heilsuteymis.

 • Brekkuskóli
   Í ár gerðum við ýmislegt. Við fóum t.d í gönguferðir um nærumhverfi og nýttum tækifærið í umferðafræðslu með yngstu nemendur. Fórum í hjólaferðir með eldri nemendur. Allir starfsmenn voru hvattir til að koma gangandi í skólann þessar vikur en við ákváðum að hafa enga skráningu á því í ár.
 • Vallaskóli
   Í 5. KHM í Vallaskóla var allan þennan mánuð rætt mikið um hversu gott það sé að koma sér í skólann með virkum ferðamáta, bæði fyrir nemendurna sjálfa og líka fyrir umhverfið. Nemendur í bekknum voru spurðir daglega hvernig þeir hefðu komið í skólann, merkt var við og í lang flestum tilfellum var það gangandi eða á hjólum. Einn nemandi sem býr langt frá skólanum hefur oft fengið far með bíl úr sveitinni í vinnuna hjá foreldri þaðan sem hann hefur svo gengið eða hjólað í skólann. Bekkjarkennari og stuðningsfulltrúi eru á einu máli um að sjá má mikinn mun á þeim sem koma gangandi eða hjólandi í skólann þar sem þeir eru mikið mun ferskari í upphafi skóladags.
 • Langholtsskóli
   Langholtsskóli hóf verkefnið með því að allir nemendur og starfsfólk skólans tóku þátt í Norræna skólahlaupinu. Allir bekkir fóru í gönguferðir um hverfið og Laugardalinn. Unglingastigið fór í göngu í Búrfellsgjá og fjallgöngu. Miðstigið fór í sameiginlega göngu og hjólaferð í gufunesbæ. Yngsta stigið fór um hverfið og í augardalinn. Allir hafa unnið verkefni og minnt á gildi göngunnar. Við höfum sent inn myndir. Nemendur skólans eru 641.
 • Þjórsárskóli
  5.6. og 7. bekkur í Þjórsárskóla fór í 3 klst. göngutúr á föstudaginn síðasta. Nemendur gengu upp á Skaftholtsfjall. Það var mikið að sjá á leiðinni eins og krummar, hestar og fleira. Frekar bratt er upp á fjallið en allir komust upp og síðan eftir hvíld var haldið til baka.
 • Húsaskóli
   Einstaklega skemmtileg vika að líða í Göngum í skólann átakinu. Verkefni vikunnar var að merkja inn á kort hvar allir í bekknum eiga heima og ganga svo um hverfið saman og sjá hvar allir í bekknum búa. Mjög skemmtilegt og fróðlegt fyrir nemendur. Gaman var að sjá stoltið í augum nemenda þegar þeir sýndu hinum í bekknum hvar þeir eiga heima. Mælum hiklaust með þessu verkefni til að gera nemendur meðvitaða um hvar samnemendur búa.
 • Grunnskóli Vestmannaeyja
  Verkefnið Göngum í skólann formlega sett 7. september hjá GRV. Vinabekkir innan skólans hittust og áttu góðan dag. Elstu nemendurnir (8.-, 9.- og 10. bekk) hittu yngstu nemendurna (1.-, 2.- og 3. bekk), hlustuðu á þá lesa og hjálpuðu þeim við nám. Í lokin fóru svo allir saman í frímínútur og léku sér saman. Á Týsvellinum hittust svo 4.-, 5.-, 6.- og 7. bekkir og fóru saman í hópeflisleiki. Í lokin fengu allir nemendur ávexti frá Bónus. Skólastjórinn upplýsti nemendur hvað felst í verkefninu og það má þegar sjá mikinn mun á umferð í kringum skólann á morgnanna sem og fjöldi hjóla fyrir utan skólann. Verkefnið fer vel af stað í eyjum.
 • Glerárskóli
   Í þessari viku er hjólavika tengt átakinu Göngum í skólann. Í morgun var þessi mynd tekin úr einum túrnum.
 • Glerárskóli
   10. bekkur að skoða áhrif mannsins á náttúruna. Glerá skoðuð. Mynd send með/nemendur á gömlu brúnni yfir Glerá.
 • Grunnskólinn á Suðureyri
   Norræna skólahlaupið fór fram í Grunnskólanum á Suðureyri þann 18. september sl. en þetta er þriðja árið í röð sem að það fer fram í Súgandafirði. Það viðraði vel til útihlaupa, hlýtt í lofti og nokkrir dropar féllu öðru hverju til að kæla skólahlaupara niður. Á milli hlaupahringja var boðið upp á ávexti og mæltist það vel fyrir að geta hlaðið rafhlöðurnar með heilsusamlegri orku. Margir nemendur höfðu sett sér metnaðarfull markmið í hlaupinu sem þeir stóðust með glæsibrag og allir gerðu sitt besta. Hlaupahringurinn er 2,5 kílómetrar langur í fjalladýrð við fjörðinn og fyrir litla fætur er langt að fara 2 hringi, en sumir fóru heila 6 hringi sem þýðir að nemendurnir hlupu á bilinu 5 til 15 kílómetra. Meðalhlaupalengd hefur aukist ár frá ári og var 7,02 km þetta árið en samtals hafa krakkarnir hlaupið heila 800 km á þessum þremur árum. Hlaupið var hluti af tveggja vikna átaki Grunnskólans á Suðureyri vegna Göngum í skólann þar sem allir voru hvattir til að koma með virkum samgöngumáta í skólann. Jafnvel þau börn sem koma lengra að og búa í sveit hafa verið dugleg við það að fara úr bílnum við leikskólann og labba þaðan í skólann. Umsjónarkennarar annast svo skráningu á gönguferðum og hvetja nemendur til dáða, en á þessum tveimur vikum missti varla nokkur nemenda úr skipti.
 • Breiðagerðisskóli
   Í Breiðagerðisskóla hafa nemendurnir unnið að flottum verkefnum sem skilaði sér í flottu myndefni og veggskreytingum í skólanum. Þar má sjá margar myndir af þeirri hreyfingu og leikjum sem staðið var fyrir úti við og myndskreytingar við hæfi með áherslu á virkan samgöngumáta og umhverfisvænar lausnir.
 • Grunnskóli Vestmannaeyja
  Nú er átakinu Göngum í skólann að ljúka og að því tilefni fór Norræna skólahlaupið fram þriðjudaginn 3. október. Nemendur og starfsfólk komu saman við Íþróttahúsið þar sem allir tóku þátt í upphitun undir stjórn Önnu Lilju kennara. Það þurfti endilega að byrja að rigna um leið og hlaupið var flautað á en það hafði ekki áhrif á nemendur sem stóðu sig virkilega vel, langflestir gáfu allt sem þeir gátu í hlaupið og höfðu gaman af þrátt fyrir bleytuna. Yngstu krakkarnir hlupu inn í Herjólfsdal, nemendur í 4.-7. bekk hlupu 3 km og nemendur í 8. -10.bekk 5 km. Margir nemendur í 4. -7. bekk hlupu líka 5 km. Tími var tekinn á þeim fyrstu sem komu í mark og voru tímarnir ansi góðir hjá mörgum. Gaman að sjá líka foreldra sem komu og tóku þátt :) Eftir hlaupið fengu allir nemendur ávexti í boði Krónunnar.
 • Húsaskóli
   Norræna skólahlaupið og gullskórinn Húsaskóli lauk fjagra vikna Göngum í skólann verkefni í dag með Norræna skólahlaupinu og afhendingu á gullskónum. Allir árgangar hlupu og voru nokkrara vegalengdir í boði. 1.-4.bekkur hlupu allt að 4 hringi í kringum Grafarvogsvöllinn. 5.-6. bekkur hlupu í kringum Voginn og var í boði að fara 5 eða 10 km. Einnig var gullskórinn afhentur fyrir góð þátttöku í Göngum í skólann. Virkilega góð þátttaka var og var hörð samkeppni. Afhending á gullskónum er skemmtileg hefð sem hefur fest sig í sessi hér í Húsaskóla. Takk fyrir okkur í ár ;)
 • Hofsstaðaskóli
  Allir nemendur skólans voru hvattir til að koma gangandi eða hjólandi í skólann síðustu fimm dagana á meðan á verkefninu stóð. Á alþjóðlega göngum í skólann deginum var haldið "skópartý" þar sem nemendur voru hvattir til að koma með gamla skó að heiman. Skónum var raðað í röð útfrá skólanum og það komu yfir 200 skópör. Skórnir verða svo gefnir í góðgerðarstarf. Partýið tókst vel og nemendur áhugasamir!
 • Glerárskóli á Akureyri
   Glerárskóli hefur undanfarin ár tekið þátt í átakinu Göngum í skólann. Verkefninu er ætlað að hvetja nemendur, foreldra og starfsmenn skóla til að ganga, hjóla, fara á línuskautum eða á annan virkan hátt til og frá skóla. Góð þátttaka var hjá nemendum Glerárskóla og sá bekkur sem var duglegastur að þessu sinni var 6 – GS og hlaut hinn árlega gullskó sem verðlaun. Hér eru þau ásamt kennara sínum Sindra Geir Óskarssyni.
 • Þjórsárskóli
   Starfsmenn Þjórsárskóla koma víða að úr sveitinni og því ekki auðvelt að ganga í skólann. Við fundum lausn á því. Við leggjum bílunum við Félagsheimilið og göngum þaðan. Þetta er ekki langur spotti en allir hafa gaman að því að ganga smá og starfsmenn eru sammála um að þeir mæti ferskari til vinnu.
 • Húsaskóli
   3.bekkur í Húsaskóla fór í grendarskóg í vikunni. Þar gerðust nemendur rannsóknarmenn og skoðuðu laufblöð og plöntur gaumgæfilega eftir að hafa undirbúið sig í skólanum. Nemendur höfðu fræðst um og skoðað hin ýmsu tré, laufblöð og plöntur sem þeir svo leituðu að í skóginum. Verkefnin vikunnar var að fara í grenndarskóg og skoða náttúruna í tengslum við dag íslenskrar náttúru. Þegar komið var til baka í skólann skelltu nemendur sér í áskorun vikunnar en það var að planka í 45 sekúndur.
 • Þjórsárskóli
   Þjórsárskóli hefur tekið þátt í verkefninu Göngum í skólann undanfarin ár. Við erum með fasta liði eins og hjólaferð. Mánudaginn 11. september fóru allir nemendahópar í hjólatúra um sveitina. Það er hjólað mislangt eftir aldri. 6. og 7. bekkur hjóla lengst, alls 12 km á malarvegi og upp og niður brekkur. Þau þurfa að fara yfir Kálfá sem er á sem rennur um sveitina. Sum hjóla yfir ána en aðrir fá far með jeppa sem ferjar yfir. Þetta er erfið leið og þennan dag var mikill mótvindur framanaf. Allur skólinn fær fræðslu um umferðaröryggi og hvað ber að varast. T.d. lentu elstu bekkirnir í því að þeir mættu olíubíl og mjólkurbíl. Einnig var á ferðinni traktor með heyvinnslutæki. Mikilvægt er því að fara yfir reglurnar og notfæra sér þær. Allir voru í vestum. Frábær dagur hjá okkur hér í sveitinni.
 • Glerárskóli
   Nemendur í 5. bekk fóru í gönguferð niður í Kvenfélagslund sem er útivistarsvæði Glerárskóla. Sendum nokkrar myndir frá þeirri göngu :)
 • Rimaskóli
  6. bekkur Rimaskóla fór í göngu upp á Úlfarsfell þann 7. september í blíðskaparveðri, spegilsléttur sjór og sól. Allir komust upp glaðir og ánægðir með sig en á toppnum fengum við okkur nesti og nutum útsýnisins sem var sko ekki ónýtt. Sendi nokkrar myndir með úr ferðinni. Kveðja Helga Sveinsdóttir, umsjónarkennari 
 • Njarðvíkurskóli
   Við í Njarðvíkurskóla tókum þátt í verkefninu, Göngum í skólann í sjötta sinn. Við sendum bréf heim til kynningar fyrir foreldra því samstarf heimilis og skóla er mikilvægt ef vel á að takast til. Verkefnið kom inn í heilsu- og forvarnarviku Reykjanesbæjar 3. – 7. október og nýttum við okkur það með því að ræða um mikilvægi góðrar heilsu og útiveru. Nemendur voru hvattir til að ganga eða hjóla í skólann ef veður leyfði og útfærðu kennarar verkefnið með nemendum sínum á margvíslegan hátt. Allir nemendur Njarðvíkurskóla tóku svo þátt í Norræna skólahlaupinu. Takk kærlega fyrir góðar upplýsingar og hugmyndir á vefnum ykkar.
 • Brekkuskóli
  Við í Brekkuskóla Akureyri tókum þátt í göngum í skólann.

  Í byrjun annar fòrum við í göngutúra um nærumhverfi skólans og fórum yfir helstu gönguleiðir til og frá skóla og umferðaröryggi.
  Elstu krakkarnir hjóluðu einnig Eyjafjarðarhringinn og notuðum við tækifærið og fórum vel yfir öll öryggisatriði þegar hjólað er ì umferðinni.
  Börnin voru hvött til að ganga ì skólans og reiknuðu hve marga km þau ganga þessi 10 ár ef þau ganga alltaf til og frá skóla.
  Margt fleira var gert innan bekkjanna.

  Skemmtilegt átaksverkefni til að vekja fólk til umhugsunar um hve auðvelt er fyrir flesta að ganga til og frá skóla/vinnu og stuðla þannig að betri heilsu og umhverfi.
 • Glerárskóli
   Átakið Göngum í skólann er nú lokið. Nemendur og starfsmenn tóku þátt í átakinu og skráð var niður koma nemenda í skólann á ákveðnu tímabili. Tímabilið var frá mánudeginum 12. september- 30. september. Sá bekkur sem sýndi framúrskarandi þátttöku var 7-KJ og hlaut hann Gullskóinn og viðurkenningarskjal að launum.
 • Ölduselsskóli
   Í Ölduselsskóla höfum við tekið virkan þátt í Göngum í skólann verkefninu með því að mæla ferðamáta nemenda í tvær vikur. Verkefnið hófst formlega á sal með öllum nemendum og starfsfólki þar sem farið var yfir mikilvægi þess að draga úr umferð við skóla og að sem flestir komi fyrir eigin orku í skólann á hverjum degi. Sama dag var skólinn í samvinnu við Íþróttafélag Reykjavíkur með sérstakan íþróttadag þar sem nemendur fengu tækifæri til að prófa sem flestar íþróttagreinar. Meðan á verkefninu stendur Þá er skólinn þátttakandi í Heilsueflandi Breiðholti og allir nemendur í 1. - 7. bekk tóku þátt spretthlaupsmælingu sem var hluti af alþjóðlegu verkefni. Þá er skólinn einnig búin að taka þátt í Norræna skólahlaupinu. Kennarar hafa notað tækifærið og farið í verkefni tengd heilsu og hollustu. 'Í dag lauk verkefninu og fengu þeir árgangar viðurkenningu sem náðu bestum árangri í að koma í skólann fyrir eigin orku. Takk fyrir okkur
 • Akurskóli
   Heilsuátakið Göngum í Skólann fór fram í Akurskóla 8. september til 3. október. Nemendur voru hvattir til að ganga eða að hjóla í skólann á því tímabili. Verðlaunaafhending fór fram 5.október á alþjóða deginum sjálfum og þeir árgangar verðlaunaði sem stóðu sig best. Á yngsta stigi stóð 2007 árgangur uppi sem sigurvegari, á miðstigi var það 2005 árgangur og á elsta stigi var það 2003 árgangur sem var duglegastur. Í verðlaun var forlátur gullskór á platta ásamt viðurkenningaskjali. Góð þátttaka var meðal nemenda og var mikil keppni milli árganga. Við hvetjum börn til að vera dugleg að ganga í skólann ef veður leyfir.
 • Grandaskóli
   Nemendur í fjórða bekk í Grandaskóla fóru og æfðu sig að fara yfir mismunandi gangbrautir í hverfinu. Venjulega sebrabraut við hlið skólans. Gangbrautarljós yfir Eiðisgranda og að síðustu að fara yfir götu þar sem engin gangbraut er. Á leiðinni æfðum við okkur í að ganga á stórgrýti. Skoðið myndir http://grandaskoli.is/images/myndasafn/index.php?sfpg=MjAxNl90aWxfMjAxNy80Ll9iZWtrdXIvR8O2bmd1bV_DrV9za8OzbGFubi8qKjM2MjBmN2M3NTliODhjYWI5MjcyYTcwMzI2NTZjMjNh
 • Breiðholtsskóli
  Göngum í skólann verkefnið 2016 í Breiðholtsskóla hefst miðvikudaginn 7. september með því að allir fara út að ganga saman bakkahringinn. Vikuna 12.-16. september, þá ætlum við að vera dugleg að skrá alla nemendur sem ganga í skólann þá vikuna og verða veitt verðlaun fyrir besta árangurinn í 1.-5. bekk og 6.-10. bekk. Verðlaunin eru skór sem Ragnheiður Sara Crossfit meistari ætlar að gefa okkur og verða það farandskór til varðveislu í bekkjarstofu í eitt ár. Verkefninu lýkur svo formlega með því að taka þátt í Norræna skólahlaupinu. Markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.
 • Grunnskólinn í Sandgerði
   Dagana 5. til 23. september tók skólinn þátt í verkefninu „Göngum í skólann“ sem er liður í að auka vitund nemenda um að nýta virkan ferðamáta til þess að koma í skólann. Hver bekkur hélt utan um sína skráningu , fjórir bekkir voru virkari en aðrir og fengu þrír viðurkenningu fyrir að hafa komið flesta daga sjálf í skólann. Það voru 3. NÓK, 7. KÓÁ og 9. ÖÆH. Einn bekkur skaraði fram úr þar sem allir nemendur komu sjálfir í skólann, 3. VHF og fékk hann viðurkenningu og farandbikarinn GULLSKÓNA. Hvetjum alla nemendur til þess að koma sjálfa í skólann og auka þannig súrefnisflæði til heilans og minnka bílaumferð við skólann.
 • grunnskóli Önundarfjarðar
   Við erum að auki að hjóla eða labba í mat á hverjum degi. Ég ætlaði að senda fleiri myndir og er ekki viss ef það tókst. Kær kveðja Edda
 • Þjórsárskóli
   Þjórsárskóli tekur þátt í Göngum í skólann verkefninu. Við höfum farið í skipulagðar gönguferðir og einnig í hjólaferðir. Föstudaginn 30. September fór allur skólinn í gönguferð. Við gengum meðfram Kálfárbökkum. Veðrið lék við okkur og við nutum þess að horfa á haustlitadýrðina. Við erum heppin að hafa fallegt umhverfi í kringum okkur. Á heimleið blasti Hekla við okkur í allri sinni dýrð.
 • Hamraskóli
   Í Hamraskóla höfum við tekið virkan þátt í "Göngum í skólann verkefninu" í ár eins og undanfarin ár. Við skráðum hvernig nemendur koma í skólann í 3 vikur og afhendum svo "Gullskóinn" þeim bekk sem er með besta hlutfallið við athöfn á sal föstudaginn 7.okt. Þá sýnum við þeim líka myndband sem við tókum saman yfir þá viðburði sem við höfum bryddað upp á. Við höfum verið með nokkrar uppákomur tengdar verkefninu s.s: Hreyfiviku Norræna skólahlaupið Leikir í Gufunesbæ Náttúrugöngu Gönguferð á Úlfarsfell í samvinnu við foreldreafélagið. Mælingu á ferðamáta í skólann í 3 vikur Gullskórinn afhendur á sal skólans. Heilsuhvetjandi kveðjur frá Hamraskóla í Grafarvogi.
 • Grenivíkurskóli
  Við í Grenivíkurskóla tókum tvær vikur þar sem við hvöttum nemendur til þess að nýta sér virkan ferðamáta til og frá skóla. Þegar þau komu í skólann á morgnana fengu þau stimpil fyrir að nota virkan ferðamáta hafi þau gert það. Við byrjuðum verkefnið að sjálfsögðu á því að kynna bæði verkefnið og umferðarreglurnar fyrir þeim og fórum sérstaklega yfir mikilvægi þess að nota hjálma. Til að gera langa sögu stutta að þá notuðu allir nemendur skólans nema einn, virkan ferðamáta alla þá daga sem fylgst var með þeim.
 • Grunnskóli Vestmannaeyja
    Göngum í skólann hófst formlega í Grunnskóla Vestmannaeyja miðvikudaginn 7. September. Það er orðin hefð á þessum degi að nemendur í eldri stigum skólans heilsi uppá yngri nemendur. Nemendur í 8.- 10. bekk gengu yfir í Hamarsskóla og heimsóttu 1. – 3. bekk. Yngri nemendur lásu fyrir þá eldri áður en það var farið út í leiki. Þar var verkefnið formlega sett af skólastjóra eftir stutta ræðu um mikilvægi þess að vera heilsuhraustur. Nemendur í 4. og 5. bekk gengu yfir í Barnaskóla til að hitta nemendur í 6. og 7. bekk, þar var farið í hópleiki áður en formleg setning fór fram. Í lokin voru ávextir í boði fyrir nemendur og starfsfólk. Nemendur í 2. – 7. bekk munu svo keppa um gullskóin á meðan verkefnið er í gangi.
 • Grundaskóli
 • Hofsstaðaskóli
   Göngum í skólann Dagana 29. september – 7. október tóku nemendur Hofsstaðaskóla þátt í alþjóðlega verkefninu „Göngum í skólann“. Í sjö daga var samgöngumáti nemenda skráður en þá daga komu að meðaltali 88% nemenda gangandi eða hjólandi í skólann. Á yngra stiginu komu flestir í 4. bekk gangandi eða hjólandi eða 91% nemenda. Á eldra stiginu komu flestir nemendur í 6. bekk gangandi eða hjólandi eða 99% nemenda. Þetta er góður árangur hjá nemendum skólans. Eins og flestir vita er Hofsstaðaskóli Grænfánaskóli og þess vegna eru allir nemendur hvattir til að halda áfram að ganga og hjóla í skólann þó að verkefninu sé lokið.
 • Grunnskóli Vestmannaeyja
  Við í GRV enduðum verkefnið Göngum í skólan með  Norræna skólahlaupinu þann 9. október. Hlaupið fór fram í rigningu og sól, þrátt fyrir bleytu stóðu nemendur sig virkilega vel og gaman að sjá nokkra foreldra sem komu með. Sú nýjun var núna að þrír drengir í 10. bekk tóku að sér að hita hópinn upp fyrir hlaupið og stóðu þeir sig með stakri prýði. Í lok hlaupsins voru ávextir í boði frá heildverslun Karls Kristmanns.
 • Rimaskóli
   8-JÓ í Rimaskóla hefur komið fótgangandi í skólann á hverjum degi á meðan átakinu ,,Göngum í skóla" stóð yfir. Samanlagt hafa nemendur gengið 561,6 km bara með því að ganga til og frá skóla þessa daga. Sjá myndir af 8-JÓ í myndasafni.
 • Grunnskóli Fjallabyggðar
  Í tenglinum er frétt frá Grunnskóla Fjallabyggðar um gönguátakið okkar.  http://grunnskoli.fjallabyggd.is/is/frettir/gullskorinn-afhentur
 • Ártúnsskóli
  Í upphafi skólaárs þegar átakið "Göngum í skólann" hefst er alltaf lögð áhersla á að kynna fyrir foreldrum að öruggasta og umhverfisvænsta leiðin í skólann er að nemendur komi gangandi. Allir árgangar hafa verið að vinna margvísleg verkefni til að hvetja nemendur að ganga í skólann.  Nemendur í 5. og 6. bekk unnið stærðfræðiverkefni þar sem þeir skrá og mæla mismunandi ferðamáta sinn til og frá skóla og vinna svo stærðfræðiverkefni í framhaldinu. Nemendur fóru út á bílastæði og æfðu helstu reikniaðgerðir með tölunum á bílnúmerum. Einnig var farið var í rannsóknargönguferð umhverfis hverfið okkar og gerðar stærðfræðiathuganir. Verkefnið hefur einnig tengst svæðavinnu miðstigs og hafa nemendur m.a. tekið púlsmælingar og komist að því að með því að ganga eða hjóla í skólann þá þjálfum við hjartað sem er gott fyrir heilsuna.
 • Ölduselsskóli
   Formleg þátttaka Ölduselssóli í „Göngum í skólann“ hófst föstudaginn 4. september kl. 10:20 á sal skólans. Farið var stuttlega yfir verkefnið á sal og sunginn afmælissöngur og hitað upp og dansað eitt lag undir umsjón eins kennara og nemenda úr öllum árgöngum. Að því loknu ætlum við að fara í stutta gönguferð með eldri og yngri árgöngum um hverfið þar sem eldri nemendur fylgja yngri nemendum. Umsjónarkennarar skulu fylgja sínum árgangi ásamt stuðningsaðilum. Að gönguferð lokinni verða stöðvar á skólalóð þar sem kennarar fá skipulag sent frá undirbúningsnefnd hvaða stöð þeir eru að hafa umsjón með. síðan hefst gönguátak þar sem gerð verðum mæling á hversu margir nemendur koma gangandi í skólann og stóð mæling yfir í tvær vikur. Að mælingu lokinni voru veittar viðurkenningar til þeirra árganga sem stóðu sig best í að koma fyrir eigin afli í skólann þessa dagana. Þeir árgangar sem stóðu sig best fengu viðurkenningarskjöl og ávaxtaveislu.
 • Grunnskóli Önundarfjarðar.
   Myndin sem við sendum inn er af yngri deild Grunnskóla Önundarfjarðar, 1 -3 bekkur.Þessi mynd var tekinn daginn sem við fórum í gönguferð um Flateyri , fórum yfir umferðarreglurnar og komum við heima hjá öllum í hópnum og tekin var mynd af hverju barni fyrir framan hús þess.Vegna tæknilegra örðugleika gátum við því miður ekki sent inn fleiri myndir. Kær kveðja
 • Grunnskóli Vestmannaeyja
   Verkefnið Göngum í skólann er enn í fullum gangi. Hjá okkur í Grunnskóla Vestmannaeyja hefur ýmislegt verið að gerast í tengslum við verkefnið. Umsjónarkennarar hafa verið duglegir að fara í gönguferðir með nemendur. Við fengum heimsókn frá lögreglunni, Davíð Þór lögregluþjónn kom og heimsótti nemendur í 1. bekk í síðustu viku. Þessa daga frá því að verkefnið fór í gang hefur verið mun minni umferð við skólann, fjöldi nemenda hefur komið gangandi eða hjólandi. Margir foreldrar hafa notað tækifærið í góða veðrinu til að ganga eða hjóla í skólann með börnum sínum og um leið kennt þeim öruggustu leiðina í skólann. Mánudaginn 14. september hófst svo keppnin um „Gullskóinn“ í 2. – 5. bekk og stendur til 25. september.
 • Leikskólinn Bergheimar
   Í dag var gangbrautarvörður við hornið á bílastæði leikskólans og gangbrautina yfir Hafnarberg. Það var greinilegt að nemendur höfðu gaman af þessu og bílstjórar voru mjög þolinmóðir og umburðarlyndir þar sem sumir tóku örlítið lengri tíma í að ganga yfir á gangbrautinni.
 • Grunnskóli Reyðarfjarðar
   Skipuleg keppni stóð yfir í fimm daga þar sem skráð var hverjir gengu í skólann eða hjóluðu. Í lok tímabilisins var "Gullskórinn" afhentur í lok skóla á föstudegi, og voru það nemendur í 7. bekk sem unnu hann með 99 % þátttöku. Þemadagar stóðu yfir á meðan á skráningu stóð, og voru tískusýninga stúlkur frá þemadögum fengnar til að sýna dans og allir sem vildu dönsuðu með og skemmtu sér vel eftir verðlaunaafhendingu. Þátttaka skólans í heild var 76,65 %. Nemendur voru hvattir áfram til að ganga eða hjóla í skólann meðan veðurblíðan á Austurlandi héldist eins en Austfirðingar kalla svona sumarauka kúrekasumar .
 • Akurskóli
  Akurskóli er diggur þátttakandi í þessu verkefni og hafa nemendur ásamt kennurum tekið þátt síðustu 6 árin. Í Ár var góð þátttaka og veðrið var bara nokkuð gott, held að það hafi verið aðeins einn dagur sem var mjög vont veður. Nemendur keppa innan skólans um Gullskóinn. Þrír verðlaunagripir eru í boði, einn fyrir 1-4, einn fyrir 5-7 og einn fyrir unglingastigið. 7.október var svo verðlaunaafhending inní íþróttahúsi þar sem kennarar kepptu í mismunandi greinum (sippa á 20 sek, þriggja stiga keppni og skora körfu ringlaður). Hægt er að sjá myndir á myndasíðunni.  
 • Rimaskóli
   Í unglingadeild Rimaskóla er boðið upp á valáfanga sem heitir Hundar sem gæludýr. Áfanginn er fyrir þá nemendur sem hafa áhuga á því að eiga hund sem gæludýr eða eiga hund sem gæludýr. Við förum í göngutúra um hverfið með hunda í bandi og á meðan átakinu Göngum í skóla stóð yfir fórum við í lengri göngutúra. Útiveran og göngutúrinn um hverfið hressir, bætir og kætir bæði hunda og menn.
 • Sjálandsskóli
   Í Sjálandsskóla er gert margt í tilefni Göngum í skólann átaksins. Í útikennslu í 1. bekk fara allir nemendur í göngutúr heim til hvers og eins, þannig að nemendur vita hvar hver og einn á heima, kannski býr einhver bekkjarfélagi í næsta húsi sem þú vissir ekki af. í útikennslu í 3. og 4. bekk var farið í hjólaferð. 5. og 6. bekkur fór á kajak á Arnarnesvoginum. 7. bekkur dansaði zorba í útikennslu og fór í boðhlaup að para sama lönd og borgir. Allur skólinn hljóp í Norræna skólahlaupinu og við endum átakið á því að hafa heilsudag þar sem unglingarnir fá m.a að prófa Cross-fit hjá Cross-fit XY í Garðabæ. þetta er bara brot af því sem búið er að gera í Sjálandsskóla nú á haustdögum tengt hreyfingu en því má ekki gleyma að allan ársins hring hvetjum við nemendur til að koma fyrir eigin vélarafli í skólann.
 • Grunnskóli Vestmannaeyja
   Verkefninu Göngum í skólann er nú u.þ.b. að ljúka. Það hefur verið mjög ánægjulegt að sjá hversu margir nemendur koma gangandi eða hjólandi í skólann. Hjólagrindur við skólann hafa verið yfirfullar og meira en það. Undirtektir foreldra/forráðamanna við verkefnið hafa verið frábærar. Það er mikill ávinningur í því að draga úr umferð við skólann og það eykur öryggi allra. Næstkomandi miðvikudag, 7. október ljúkum við átakinu með Norræna skólahlaupinu. Hlaupið hefst með upphitun við Íþróttamiðstöðina kl. 10:30, foreldrar og forráðamenn eru velkomnir að vera með. Það er ósk okkar að áframhald verði á dugnaði nemenda að koma gangandi/hjólandi í skólann, sérstaklega meðan veður er eins gott og það hefur verið undanfarið.
 • Grandaskóli
   Nemendur Grandaskóla tóku heilan dag í september í fjallgöngur. 1. - 6. bekkur gekk á Úlfarsfell og 7. bekkur gekk á Hengilssvæðinu frá Nesjavallavegi að Hellisheiðarvirkjun.
 • Hvolsskóli
  Fyrsta vikan í ,,Göngum í skólann“ er liðin. Við í Hvolsskóla hófum átakið með því að hvetja nemendur til þess að ganga/hjóla í skólann næstu 4 vikurnar og settum upp keppni milli bekkja. Skólabílar hafa verið að hleypa krökkunum út við íþróttahús og þau gengið þaðan í skólann (bannað að stytta sér leið í gegnum íþróttahús). Eins og í fyrra verða duglegustu bekkirnir verðlaunaðir á föstudögum og fær sigurvegari á hverju stigi verðlaunagripinn ,,Gullskórinn" til geymslu í eina viku. Fyrsta keppnisvikan hófst 14. sept og voru sigurvegarar þeirra viku krýndir í dag. Þessi mynd er af sigurvegurum á miðstigi, 5. bekkur. Ólafur Örn Oddsson Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Rangárþings eystra
 • Þjórsárskóli
   Við í Þjórsárskóla höfum notað tímann vel til hreyfingar. Við fórum í gönguferð með alla árganga að Skaftholtsfjalli sem er um 1,5 km frá og gengum upp á fjallið. Við vorum með hjóladag þar sem allir nemendur skólans hjóluðu mislangar vegalengdir. Þau elstu fóru 10 km hring og yfir Kálfá. Veðrið lék við okkur þessa daga. Við höfum líka haft hreyfitíma í frímínútum. Bestu kveðjur frá okkur í Þjórsárskóla.
 • Grunnskóli Vestmannaeyja

  Göngum í skólann setning


  Föstudaginn 11. september var átakið Göngum í skólann formlega sett í Grunnskóla Vestmannaeyja.
  Nemendur í 8. – 10. bekk gengu yfir í Hamarsskóla og heimsóttu vinabekki sína í 1. – 3. bekk.
  Eldri nemendurnir byrjuðu á því að hlusta á þá yngri lesa. Þegar því var lokið unnu nemendur með hjörtu sem þeir klipptu út og skreyttu, hengdu síðan upp á veggi skólans.

  Með því að ganga eða hjóla í skólann þá þjálfum við hjartað. Þar sem tími vannst til spiluðu nemendur saman.
  Í lokin fóru nemendur saman út í frímínútur í leiki.
  Endaði heimsóknin á því að skólastjóri kallaði nemendur og starfsfólk saman á gervigrasvöllinn og setti átakið formlega. Nemendur í 4. og 5. bekk gengu yfir í Barnaskóla til að hitta nemendur í 6. og 7. bekk.
  Skólastjóri hélt þar stutta ræðu og setti verkefnið.

  Eftir það var skipt í hópa og nemendur fóru í hópeflisleiki á skólalóðinni.
  Öllum nemendum skólans boðið upp á ávexti úti á skólalóðinni í góða veðrinu, það var verslunin Krónan sem gaf okkur ávextina og viljum við þakka þeim það.

  Dagurinn var mjög vel heppnaður og nemendur stóðu sig frábærlega.
  Verkefnið stendur yfir frá 9. sept. til 7. október og lýkur með alþjóðlega Göngum í skólann deginum, við í GRV endum þann dag með Norræna skólahlaupinu. Keppnin um Gullskóinn hjá 2. – 7. bekk hófst mánudaginn 14. sept. og stendur yfir til 25. sept.