Göngum í skólann er hluti af verkefninu ,,Virkar og öruggar leiðir í skólann", sem nýtur stuðnings "Go for Green" og annarra samstarfsaðila.
Verkefninu er ætlað að hvetja nemendur, foreldra og starfsmenn skóla til að ganga, hjóla, fara á línuskautum eða á annan virkan hátt til og frá skóla. Íslensk börn og fullorðnir sem taka þátt í verkefninu slást þar með í för með mörgum öðrum þjóðum heims, svo sem Áströlum, Brasilíumönnum, Kýpurbúum, Bretum, Írum, Nýsjálendingum, Svisslendingum og Bandaríkjamönnum.

Októbermánuður er ,,Göngum í skólann" mánuður.
Í októbermánuði ár hvert eru börn hvött sérstaklega til að nýta sér virkan samgöngumáta, svo sem göngu, til að ferðast til og frá skóla. Vegna aðstæðna hérlendis var ákveið af undirbúningshóp verkefnisins að hvetja skóla til að byrja verkefnið í september og ljúka því á alþjóðlega göngum í skólann deginum í byrjun október. Markmið verkefnisins eru meðal annars að:

- Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.

- Stuðla að heilbrigðum lífsstíll fyrir alla fjölskylduna, en hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.

- Minnka umferð við skóla og draga þar með úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum ásamt betra og hreinna lofti og öruggari og friðsælli götum og hverfi.
 
- Stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál. Beina sjónum að því hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Auka samfélagsvitund.
 
- Auka vitund um reglur þær er lúta að öryggi á göngu og hjóli.
 
 

Ágrip af sögu verkefnisins

Árið 1976 hófst verkefnið ,,Öruggari leið í skólann“ í Óðinsvéum í Danmörku eftir að mörg börn höfðu látist í umferðarslysum. Forystumenn í samfélaginu, kennarar, stjórnmálamenn og opinbert starfsfólk tók höndum saman til að breyta hættulegum götum í öruggar leiðir. Þremur árum síðar hafði árlegt slysahlutfall lækkað um 85%.

Síðan hefur þessu verkefni verið hleypt af stokkunum í löndum eins og Bretlandi, Ástralíu, Frakklandi, Japan og Bandaríkjunum. Samtökin Greenest City í Ontario áttu frumkvæðið með þátttöku þriggja skóla á Toronto-svæðinu árið 1997. Á sama tíma kostaði Greater Vancouver Regional District (GVRD) verkefni sem hvatti til virkari samgangna og varð það upphafið að ,,Way to Go!“ skólastarfinu. Fljótlega eftir það var ,,Öruggari leið í skólann“ komið á um allt Kanada.

Skólagöngudagurinn

,,Göngum með börnunum“ í skólann hófst 1997 í Chicago á vegum ,,Partnership for a Walkable America“. Árið 1998 hóf „Go for Green“ landsátakið ,,Virkar og öruggar“ leiðir í skólann í samstarfi við fyrsta ,,Skólagöngudaginn“ í Kanada. Þátttakan hefur aukist með ári hverju og árið 2003 tóku rúmlega 1900 skólar í Kanada þátt.

Árið 2004 varð ,,Alþjóðlegi skólagöngudagurinn“ að viku. Nú gengur verkefnið þannig fyrir sig að skólar geta valið sér að hafa átakið á þann máta sem hentar þeim, s.s. einn skólagöngudag, eina skólagönguviku eða nýtt sér alþjóðlega skólagöngumánuðinn - október - til að hvetja til þess að ganga í skólann.

Tenglar:

http://www.iwalktoschool.org/

http://www.saferoutesinfo.org/

http://www.walkbiketoschool.org/