01.10.2025 Verkefninu Göngum í skólann er nú lokið fyrir árið 2025 og alls tóku 64 grunnskólar þátt að þessu sinni. Markmið verkefnisins er að hvetja börn og foreldra til að nýta sér virkan og öruggan ferðamáta til og frá skóla með áherslu á hreyfingu, öryggi og sjálfbærni.
Þátttaka í ár er heldur minni en í fyrra þegar 77 skólar tóku þátt og 2023 þegar 83 skólar tóku þátt. Þeir grunnskólar sem tóku þátt eiga hins vegar hrós skilið, því þátttaka þeirra endurspeglar aukna meðvitund um mikilvægi hreyfingar og heilsueflingar í daglegu lífi barnanna. Einnig er ánægjulegt að sjá hvernig skólastjórnendur og kennarar nýta verkefnið í kennslu nemenda og styðja þannig við lífsstíl og lýðheilsu barna og ungmenna.
Fjórir grunnskólar tóku í ár þátt í fyrsta sinn; Grunnskóli Borgarfjarðar, Hamarsskóli, Valhúsaskóli og leik- og grunnskólinn Hofgarður í Öræfum
Göngum í skólann fellur afar vel að þeim markmiðum sem fjölmargir skólar vinna nú þegar að, eins og Heilsueflandi grunnskóli og geta nýtt verkefnið í kennslustundum og sjálfbærnimenntun. Það er von ÍSÍ að fleiri skólar taki þátt á næsta ári
Í ár verða dregnir út þrír þátttökuskólar sem hljóta 150.000 króna gjafabréf hvor frá Altis. Gjafabréfin má nýta til kaupa á búnaði fyrir skólalóð eða íþróttasal. ÍSÍ mun hafa samband við vinningshafa og nöfn skólanna verða jafnframt birt á heimasíðu verkefnisins.
Göngum í skólann er alþjóðlegt verkefni sem nær til milljóna barna um allan heim. Með því að auka færni barna til að ferðast gangandi á öruggan hátt og efla vitund þeirra um ávinning reglulegrar hreyfingar stuðlar verkefnið að heilbrigðum lífsstíl, minni umferðarþunga við skóla og aukinni umhverfisvitund. Allt í þágu betra samfélags og lýðheilsu.
ÍSÍ þakkar samstarfsaðilum verkefnisins fyrir en þeir eru Samgöngustofa, Ríkislögreglustjóri, mennta- og barnamálaráðuneytið, Heimili og skóli. embætti landlæknis, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og European Commission #BeActive