Í tilefni Göngum í skólann var verkefnið kynnt í Flúðaskóla sem göngu- og útivistarvakning fyrir allan skólann. Kennarar voru hvattir til að minna nemendur á að skrá bæði gönguferðir og skemmtilega útiveru á dagatal verkefnisins, með það að markmiði að auka meðvitund um daglega hreyfingu og ánægjulega útivist.
Myndmenntakennarinn sótti innblástur á vefsíðu Göngum í skólann og fór með nemendur sína í skapandi gönguferð um nánasta umhverfi. Með sér höfðu þau vatnsliti og krítar, og fóru nemendur að mála og skreyta stéttar og gangstéttar með jákvæðum skilaboðum og litríku myndefni. Verkefnið vakti mikla gleði og virkjaði hugmyndaflug nemenda, einn nemandi í 6. bekk vildi endilega mála regnbogafánann á stéttina „af því að við erum öll velkomin“, eins og hann orðaði það sjálfur. Annar nemandi ritaði stórum stöfum á bílaplan leikskólans hlýleg skilaboð sem hugsuð voru sem orðsending frá leikskólabörnum til foreldra sinna.
Hinn 11. september gengu allir nemendur Flúðaskóla upp á Miðfell og var létt yfir hópnum þrátt fyrir strekkingsvind, enda blés hann í bakið upp brekkurnar. Yngri nemendur, í 1.–4. bekk, fóru í fjöruferð þar sem þau fengu tækifæri til að kanna fjölbreytt lífríki strandarinnar og upplifa náttúruna í nærumhverfinu á lifandi hátt.
Að auki hefur septembermánuður í Flúðaskóla einkennst af útihlaupi í íþróttatímum, þar sem lögð hefur verið sérstök áhersla á útiveru og hreyfingu í dagskrá skólans.